top of page

Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl




Á hverju vori er alþjóðlega dansdeginum fagnað víða um heim þann 29.apríl. Vakin er athygli á danslistinni og gildum hennar fyrir samfélagið. Í ár verður deginum fagnað rafrænt af danssamfélaginu á heimsvísu. Það er ITI - alþjóðlega leikhússtofnun Unesco sem stofnaði til dagsins árið 1982 í minningu franska danslistamannsins Jean Georges Noverre en hægt er að kynna sér viðburðinn hér:


Í tilefni dagsins vill félag íslenskra listdansara vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í listdansskólum landsins og ýta undir mikilvægi þess að sem flestir fái tækifæri til að kynnast dansinum sem listgrein á sinni skólagöngu. Dansinn er í eðli sínu skapandi tjáningarform en á sama tíma frábær og fjölbreytt likamshreyfing sem stuðlar að almennu heilbrigði og vellíðan.


Á tímum kyrrsetu og tæknibyltingar vill líkaminn oft gleymast, hugurinn aftengist og rofnar frá líkamanum. Sjálfsvitundin dofnar. Dansinn sem hluti af menntun barna er kærkomin leið til að rjúfa kyrrsetu og efla innri tengsl í gegnum sambandið hugur, líkami og sál.


FÍLD óskar öllum dönsurum nær og fjær til hamingju með daginn.


Orðsending í tilefni alþjóðlega dansdagsins eftir Friedemann VOGEL

Allt byrjar með hreyfingu – eðlishvöt sem er okkur öllum sameiginleg – og dansinn er hreyfing sem er öguð til þess að miðla. Óaðfinnanleg tækni er vissulega mikilvæg og tilkomumikil, en þegar allt kemur til alls þá skiptir það sem dansarinn tjáir inni í hreyfingunni öllu máli.


Sem dansarar erum við stöðugt á hreyfingu í þeim tilgangi að reyna að skapa þessar ógleymanlegu stundir. Sama hver danstegundin er, þá er þetta drifkraftur allra dansara. Þegar leikhúsum hefur svo allt í einu verið lokað og hátíðum frestað og við megum ekki koma fram lengur, þá hefur heimurinn okkar stöðvast. Engin líkamleg snerting. Engar sýningar. Engir áhorfendur. Aldrei fyrr í manna minnum hefur danssamfélagið staðið frammi fyrir jafn sameiginlegri áskorun um að halda áhuganum vakandi og finna tilvistarlegan tilgang okkar.


Það er samt einmitt þegar eitthvað dýrmætt hefur verið tekið frá okkur sem við gerum okkur raunverulega grein fyrir mikilvægi verka okkar og hve mikla þýðingu dansinn hefur fyrir allt samfélagið. Dönsurum er oft hampað fyrir líkamlega færni sína þegar reyndin er sú að oftast er það frekar andlegi styrkurinn sem heldur okkur gangandi. Ég tel að það sé þetta einstaka sambland af líkamlegri og sálrænni snerpu sem muni hjálpa okkur að sigrast á ástandinu og endurskapa okkur til að við getum haldið áfram að dansa og veita innblástur.


Höfundur orðsendingar alþjóðlega dansdagsins, 29. apríl árið 2021:

Friedemann VOGEL frá Þýskalandi

Ballettdansari


Alþjóðlega leikhússtofnunin ITI -International Theatre Institute

Alþjóðastofnun fyrir sviðslistir


5 views

Recent Posts

See All

Aðalfundarboð FÍLD 2023

Stjórn FÍLD boðar til aðalfundar félagsins sunnudaginn 5.febrúar kl.16:00 – 17:30 í Dansverkstæðinu, Hjarðarhaga 47. Dagskrá aðalfundar:...

Σχόλια


bottom of page