Íslenski dansflokkurinn frumsýnir á laugardaginn sýninguna Dísablót þar sem sýnd verða tvö ný dansverk; Verk nr. 1 og Pottþétt myrkur. Bæði verkin eru samin af íslenskum samtímadanshöfundum við nýja íslenska tónlist en nýsköpun í dansi og tónlist er það sem einkennir sýningarárið hjá Íslenska dansflokknum.
Verk nr. 1 er dansverk eftir Steinunni Ketilsdóttur við frumsamda tónlist Áskels Harðarsonar.
Verk nr. 1 er eitt mögulegt? dansverk skapað á þessum stað í tíma og rúmi. Það hefur óendanleg sjónarhorn, að innan jafnt sem utan. Það er fyrsta dansverkið í samnefndri röð verka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur sem sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansi sem Steinunn hefur leitt undanfarin tvö ár. Rannsókninni er ætlað að ýta undir þekkingaröflun á sviði danslistarinnar með því að kanna möguleika listformsins utan venjubundinna birtingarmynda þess og fjallar á gagnrýninn hátt um fyrirfram gefnar hugmyndir okkar tengdum dansgreininni.
Pottþétt myrkur er lokakaflinn í röð verka um myrkrið og berskjöldun líkamans eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson við tónlist Sigur Rósar og Valdimars Jóhannssonar. Fyrsta verkið í röðinni, Myrkrið faðmar, var frumsýnt á listahátíðinni Norður og niður á vetrarsólstöðum 2017 og í kjölfarið komu myndbands-innsetning Örævi á Vetrarhátíð í Reykjavík 2018 og Brot úr myrkri á Listahátíð í Reykjavík 2018. Ólgur í samfélaginu höfðu veruleg áhrif á sköpunarferli verkanna og er útkoman úr öllu ferlinu magnað og tilfinningaþrungið dansverk sem hrífur mann með sér.
Dísablót er frumsýnt 17. Nóvember á sviðslistahátíðinni SPECTACULAR. Sýnt er á Nýja sviði Borgarleikhússins og eru aðrar sýningar 18/11, 29/11, 2/12 og 9/12. Í lok sýningarinnar 18. nóvember verður boðið upp á listamannaspjall með dönsurum og öðrum aðstandendum.
留言