top of page

Orðsending í tilefni alþjóðlega dansdagsins

29. apríl 2020 Gregory Vuyani MAQOMA, frá Suður-Afríku Dansari, leikari, danshöfundur og danskennari Í viðtali, sem tekið var við mig nýlega, þurfti ég að kafa ofan í hugtakið dans og hvers virði hann væri mér. Í svari mínu varð ég að líta um öxl og skoða feril minn og við það gerði ég mér grein fyrir að allt snerist þetta um tilgang. Sérhver dagur felur í sér nýja áskorun sem þarf að takast á við og það er í gegnum dansinn sem ég reyni að öðlast skilning á heiminum. Við erum að ganga í gegnum ótrúlegar hörmungar á tímum sem mér finnst best að kalla eftirmannlega tímabilið. Núna er meiri þörf á að dansa með tilgangi en nokkru sinni fyrr og að minna heiminn á að mennskan sé ennþá til. Tilgangur og samhyggð verða að bera sigurorð af tvímælalausu og áralöngu sýndarlandslagi sundrungar sem hefur kallað fram tilfinningaútrás fyrir allsherjar sorg. Sú útrás mun sigra dapurleikann og harðan veruleikann sem heldur áfram að gegnsýra þá lifendur sem horfast í augu við dauða, höfnun og fátækt. Nú, frekar en nokkru sinni fyrr, verður dansinn okkar að gera ráðamönnum heimsins og þeim sem hefur verið falið að gæta og bæta aðbúnað manna, skýra grein fyrir að við skipum her hamslausra hugsuða og að tilgangur okkar sé sá að reyna að breyta heiminum skref fyrir skref. Dans er frelsi og með fundnu frelsi okkar verðum við að losa aðra úr þeirri sjálfheldu sem þeir eru komnir í víðsvegar um heim. Dansinn er ekki pólitískur en hann verður pólitískur af því að hann tvinnast mannlegu samhengi og þess vegna veitir hann aðstæðum svörun í tilraun sinni til að endurskapa mannlega reisn. Þegar við dönsum með líkömum okkar, veltumst um í rými og flækjumst hvert um annað, verðum við hreyfiafl sem hjúpar hjörtu, snertir sálir og veitir líkn sem svo sár þörf er fyrir. Tilgangurinn verður því að einum fjölgreinóttum, ósigrandi og ódeilanlegum dansi. Það eina sem við þurfum núna er að dansa aðeins meira!


Alþjóðlega leikhússtofnunin ITI -International Theatre Institute Alþjóðastofnun fyrir sviðslistir Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl Alþjóðlegi dansdagurinn var settur á laggirnar árið 1982 fyrir tilstilli dansdeildar Alþjóðlegu leikhússtofnunarinnar ITI og skal hann haldinn hátíðlegur 29. apríl ár hvert á afmælisdegi brautryðjanda nútímadansins, Jean-Georges Noverre (1727-1810). Ásetningur Alþjóðlega dansdagsins er að lofsyngja dansinn, njóta algildis listformsins, fara yfir öll pólitísk, menningarleg og þjóðernisleg mörk og sameina fólk með því máli sem er okkar allra – dansinum! Á hverju ári er orðsending frá framúrskarandi danshöfundi, eða dansara, látin berast um víða veröld. Það er ITI sönn ánægja og heiður að tilkynna opinberlega að höfundur hinnar formlegu orðsendingar Alþjóðlega dansdagsins árið 2020, er Gregory MAQOMA, dansari, danshöfundur, danskennari og leikari frá Suður-Afríku. Höfundur orðsendingar alþjóðlega dansdagsins árið 2020: Gregory Vuyani MAQOMA frá Suður-Afríku


Æviferill höfundar: Gregory Vuyani MAQOMA frá Suður-Afríku Dansari, danshöfundur, leikari, danskennari Áhugi Gregory Vuyani Maqoma á dansi vaknaði seint á níunda áratugnum og veitti honum leið til að flýja vaxandi pólitíska spennu í fæðingabæ sínum. Hann hóf formlega dansþjálfun sína árið 1990 í danslistarskólanum Moving Into Dance þar sem hann varð listrænn stjórnandi árið 2002. Maqoma hefur skapað sér nafn á alþjóðavettvangi sem nafntogaður dansari, danshöfundur, kennari og stjórnandi. Hann stofnaði dansleikhúsið Vuyani Dance Theatre (VDT) árið 1999 meðan hann var í námsleyfi við sviðslistaskólann, Perfoming Arts Resarch and Training School (PARTS) í Belgíu, undir stjórn Anne Teresa De Keersmaeker. Maqoma nýtur virðingar vegna samstarfs síns við samtímalistamenn af hans kynslóð á borð við Akram Kham, Vincent Mantsoe, Faustin Linyekula, Dada Masilo, Shanell Winlock, Sidi Larbi Cherkaoui, Nhlanhla Mahlangu og leikhússtjórann James Ngcobo. Allmörg verka hans hafa notið hylli og hlotið viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Hann hlaut m.a. verðlaunin FNB Vita Choreographer of the Year árin 1999, 2001 og 2002 fyrir Rhythm 2.3.4, Rhytm Blues og Southern Comfort, í þeirri röð. Hann hlaut Standard Bank Young Artist verðlaunin fyrir Dance árið 2002. Maqoma var þátttakandi í úrslitakeppni um Daimler Chrysler Choreography verðlaunin árið 2002 og í Rolex Mentorship Programme árið 2003. Hann vann Tunkie verðlaunin árið 2012 fyrir framúrskarandi danshæfileika. Árið 2014 fékk hann „Bessie“ verðlaunin, sem eru helstu dansverðlaun New York borgar, fyrir dansverkið Exit/Exist. Hann tók þátt í tilnefningu til Rolex Arts Initiative verðlaunanna árin 2016-2017, ásamt því að stjórna Main Dance Program árið 2017 fyrir The National Arts Festival. Um þessar mundir er verið að sýna verk hans Via Kanana og Cion: Requiem of Ravel‘s Bolero í Afríku og Evrópu. Árið 2017 hlaut Maqoma frönsku heiðursverðlaunin Chevalir de l´Ordre des Arts et des Lettres (Riddari lista & bókmennta). Árið 2018 var hann heiðraður af suður-afríska lista- & menningarmálaráðuneytinu og hlaut þá Usiba setningarverðlaunin fyrir trúmennsku sína við danskennslu. Árið 2018 var Maqoma einn útvaldra listamanna við dansdeild Virginia Commonwealth háskólans, ásamt því að vera gestakennari við Ecole De Sables – Toubab Dialaw í Senegal. Maqoma er aðili að valnefnd fyrir Dance Biennale Afrique Festival sem verður haldin í Marrakech árið 2020. Árið 2018 tók Maqoma þátt í samstarfi með William Kentridge sem danshöfundur og dansari í óperu eftir Kentridge, The Head And The Load sem var frumsýnd í Tate Modern Gallery í London í júlí og var svo sett upp í Þýskalandi, Austurríki, Hollandi og New York. Árið 2019 tók Maqoma þátt í samstarfi með Idris Elba og Kwame Kwei-Armah í uppsetningu á verkinu Tré sem var sviðsett af Manchester International Festival og Young Vic.

9 views

Recent Posts

See All

Aðalfundarboð FÍLD 2023

Stjórn FÍLD boðar til aðalfundar félagsins sunnudaginn 5.febrúar kl.16:00 – 17:30 í Dansverkstæðinu, Hjarðarhaga 47. Dagskrá aðalfundar:...

Comentários


bottom of page