Ávarp Susan Rosenberg / Trisha Brown
Alþjóðlegi dansdagurinn 2017
Ég gerðist dansari af því að mig langaði til að geta flogið. Ég varð alltaf snortin af tilhugsuninni um að sigrast á þyngdaraflinu. Það eru engar duldar merkingar í dönsunum mínum. Þeir eru andleg æfing í líkamlegu birtingarformi.
Dansinn tjáir og víkkar út alheimstungumál samskipta. Hann elur af sér gleði, fegurð og framþróun mannlegrar þekkingar. Dansinn hverfist um sköpunargáfu ... aftur og aftur ... í hugsuninni, í tilurðinni, í framkvæmdinni og í flutningnum. Líkamar okkar eru tæki til tjáningar en ekki greiningar. Þessi tilhugsun leysir sköpunarmátt okkar úr læðingi sem er í senn grundvallarlærdómur og gjöf listsköpunar.
Lífi listamannsins lýkur ekki með árunum líkt og sumir gagnrýnendur trúa. Dansinn er búinn til úr fólki – fólki og hugmyndum. Sem áhorfandi geturðu tekið sköpunarkraftinn með þér heim og nýtt hann í þínu daglega lífi.
Þessi orðsending er til atvinnudansara og dansaðdáenda um víða veröld.
Hún er einnig birt til heiðurs Trisha Brown, danslistakonu sem lést 18. mars 2017.
Susan Rosenberg, sem var náinn samstarfsmaður Brown, setti þessa orðsendingu saman úr ritverkum og ummælum eftir hana. Orðsendingin gefur til kynna sýn hennar á verk sín og gildismatið sem þau fela í sér.
Þýðing: Steinunn Þorvaldsdóttir