Íslenskur listdans
Dansarar stofna félag
Félag íslenskra listdansara, FÍLD, var stofnað 27. mars 1947 á heimili Ástu Norðmann. Ásta var fyrsti formaður félagsins, en stofnfélagar auk hennar voru Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Allar höfðu þær numið dans erlendis og voru að hasla sér völl í íslensku listalífi. Fyrsta baráttumál FÍLD kvenna var að fá danslistina viðurkennda sem sjálfstæða og marktæka listgrein en tilhneiging var til að flokka hana sem hliðargrein af leiklistinni.
Óformlegra upphaf listdansins má rekja 100 ár aftur í tímann eða til konungskomunnar árið 1907 en í fylgdarliði konungs var herra Berthelsen sem Stefanía Guðmundsdóttir og Árni Eiríksson höfðu fengið hingað til að kenna dans. Í þessari 100 ára sögu listdans á Íslandi táknar stofnun FÍLD upphaf áralangrar baráttu og uppbyggingar listdans hérlendis þar sem markmiðið var að gæta hagsmuna íslenskra danslistamanna, efla danslistina á Íslandi og reyna að hafa áhrif á úthlutun fjár- og styrkveitinga til listdansmála. Það hefur síðan breyst í tímans rás hvaða baráttumál eru efst á baugi, enda ber það vott um að árangur hafi náðst á ýmsum sviðum.



Uppbygging listdansmenntunar
Dansmenntun barna hefur alla tíð verið félagsmönnum hugleikin og um tíma var rekinn listdansskóli á vegum félagsins. Upphafskonur FÍLD kenndu allar dans og ráku margar eigin skóla og síðan þá hefur verið unnið öflugt starf í dansmenntun barna m.a. í einkareknum listdansskólum, skólum sem margir hafa haldið uppi samfelldu starfi áratugum saman. Árið 1952 var Listdansskóli Þjóðleikhússins stofnaður og var fyrsti skólastjóri skólans daninn Erik Bisted. Hann var síðan ráðinn listdansstjóri Þjóðleikhússins og fylgdi það starfi listdansstjóra leikhússins að veita skólanum forstöðu. Þegar Íslenski dansflokkurinn var stofnaður 1973 færðist stjórnun skólans yfir á herðar Þjóðleikhússtjóra sem hafði um tíma umsjón með listdansskólanum, dansflokknum og leikhúsinu.
Árið 1977 var Ingibjörg Björnsdóttir ráðin fyrsti skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins og gegndi hún því starfi sleitulaust til 1997. Eftir að Örn Guðmundsson tók við Listdansskóla Íslands árið 1997 tók skólinn miklum stakkaskiptum. Komið var á stofn framhaldsskólastigi í nútímadansi og klassískum listdansi í samvinnu við framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu. Við stofnun þessa menntastigs var litið til sambærilegra skóla á norðurlöndunum og þá sérstaklega sænska ballettskólans. Aðkoma erlendra gestakennara að Listdansskóla Íslands jókst, samstarf hans við erlenda listdansskóla og tengslanet efldist til muna og haustið 2003 fóru fyrstu nemendurnir frá skólanum í starfsþjálfun hjá Íslenska dansflokknum.
Árið 2003 fór stjórn FÍLD að beita sér fyrir því að einkaskólarnir gætu sótt um fjármagn til ríkis og sveitarfélaganna vegna starfsemi sinnar, sambærilegum þeim sem tónlistarskólarnir og íþróttafélögin fengu. Haustið 2005 var svo tekin ákvörðun innan stjórnsýslunnar um algjöra uppstokkun á fjárframlagi til dansmenntunar í landinu. Skýr skipting var þá gerð milli skólastiga í listdansi og reglugerðir um fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum voru skrifaðar í kjölfarið. Innan ramma þessa nýja rekstrarfyrirkomulags gaf menntamálaráðuneytið út námskrár fyrir listdans á grunn- og framhaldsskólastigi, byggðar á þeim grunni, frá forskóla til stúdentsprófs sem þegar hafði verið lagður innan Listdansskóla Íslands. Vorið 2007 höfðu Listdansskóli Íslands, Klassíski Listdansskólinn og Danslistaskóli JSB hafið kennslu eftir nýrri námskrá fyrir framhaldsskólastigið og enn fleiri listdansskólar starfa eftir námsskrá fyrir grunnskólastigið. Litið er á þetta sem mikið framfaraskref fyrir listdansnám almennt en um tvöþúsund börn stunda nám í greininni í dag í níu listdansskólum í Reykjavík, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Keflavík, Akureyri og Ísafirði.


