Íslenskur listdans
Dansarar stofna félag
Félag íslenskra listdansara, FÍLD, var stofnað 27. mars 1947 á heimili Ástu Norðmann. Ásta var fyrsti formaður félagsins, en stofnfélagar auk hennar voru Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Allar höfðu þær numið dans erlendis og voru að hasla sér völl í íslensku listalífi. Fyrsta baráttumál FÍLD kvenna var að fá danslistina viðurkennda sem sjálfstæða og marktæka listgrein en tilhneiging var til að flokka hana sem hliðargrein af leiklistinni.
Óformlegra upphaf listdansins má rekja 100 ár aftur í tímann eða til konungskomunnar árið 1907 en í fylgdarliði konungs var herra Berthelsen sem Stefanía Guðmundsdóttir og Árni Eiríksson höfðu fengið hingað til að kenna dans. Í þessari 100 ára sögu listdans á Íslandi táknar stofnun FÍLD upphaf áralangrar baráttu og uppbyggingar listdans hérlendis þar sem markmiðið var að gæta hagsmuna íslenskra danslistamanna, efla danslistina á Íslandi og reyna að hafa áhrif á úthlutun fjár- og styrkveitinga til listdansmála. Það hefur síðan breyst í tímans rás hvaða baráttumál eru efst á baugi, enda ber það vott um að árangur hafi náðst á ýmsum sviðum.
Uppbygging listdansmenntunar
Dansmenntun barna hefur alla tíð verið félagsmönnum hugleikin og um tíma var rekinn listdansskóli á vegum félagsins. Upphafskonur FÍLD kenndu allar dans og ráku margar eigin skóla og síðan þá hefur verið unnið öflugt starf í dansmenntun barna m.a. í einkareknum listdansskólum, skólum sem margir hafa haldið uppi samfelldu starfi áratugum saman. Árið 1952 var Listdansskóli Þjóðleikhússins stofnaður og var fyrsti skólastjóri skólans daninn Erik Bisted. Hann var síðan ráðinn listdansstjóri Þjóðleikhússins og fylgdi það starfi listdansstjóra leikhússins að veita skólanum forstöðu. Þegar Íslenski dansflokkurinn var stofnaður 1973 færðist stjórnun skólans yfir á herðar Þjóðleikhússtjóra sem hafði um tíma umsjón með listdansskólanum, dansflokknum og leikhúsinu.
Árið 1977 var Ingibjörg Björnsdóttir ráðin fyrsti skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins og gegndi hún því starfi sleitulaust til 1997. Eftir að Örn Guðmundsson tók við Listdansskóla Íslands árið 1997 tók skólinn miklum stakkaskiptum. Komið var á stofn framhaldsskólastigi í nútímadansi og klassískum listdansi í samvinnu við framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu. Við stofnun þessa menntastigs var litið til sambærilegra skóla á norðurlöndunum og þá sérstaklega sænska ballettskólans. Aðkoma erlendra gestakennara að Listdansskóla Íslands jókst, samstarf hans við erlenda listdansskóla og tengslanet efldist til muna og haustið 2003 fóru fyrstu nemendurnir frá skólanum í starfsþjálfun hjá Íslenska dansflokknum.
Árið 2003 fór stjórn FÍLD að beita sér fyrir því að einkaskólarnir gætu sótt um fjármagn til ríkis og sveitarfélaganna vegna starfsemi sinnar, sambærilegum þeim sem tónlistarskólarnir og íþróttafélögin fengu. Haustið 2005 var svo tekin ákvörðun innan stjórnsýslunnar um algjöra uppstokkun á fjárframlagi til dansmenntunar í landinu. Skýr skipting var þá gerð milli skólastiga í listdansi og reglugerðir um fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum voru skrifaðar í kjölfarið. Innan ramma þessa nýja rekstrarfyrirkomulags gaf menntamálaráðuneytið út námskrár fyrir listdans á grunn- og framhaldsskólastigi, byggðar á þeim grunni, frá forskóla til stúdentsprófs sem þegar hafði verið lagður innan Listdansskóla Íslands. Vorið 2007 höfðu Listdansskóli Íslands, Klassíski Listdansskólinn og Danslistaskóli JSB hafið kennslu eftir nýrri námskrá fyrir framhaldsskólastigið og enn fleiri listdansskólar starfa eftir námsskrá fyrir grunnskólastigið. Litið er á þetta sem mikið framfaraskref fyrir listdansnám almennt en um tvöþúsund börn stunda nám í greininni í dag í níu listdansskólum í Reykjavík, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Keflavík, Akureyri og Ísafirði.
Íslenski dansflokkurinn
Stofnun Íslenska dansflokksins var frá upphafi brennheitt baráttumál FÍLD. Með því að koma á atvinnugrundvelli fyrir dansara vildu félagsmenn auka möguleikana á sjálfstæðri þróun listdansins og með stofnun flokksins 1973 rættist þessi langþráði draumur félagsmanna. Fyrsta starfsár flokksins fór starfsemin fram í Félagsheimili Seltjarnarness, en síðan var flokkurinn tekinn undir verndarvæng Þjóðleikhússins þar sem hann átti sitt heimili næstu árin. Með tilkomu Íslenska dansflokksins og Listdansskóla Þjóðleikhússins urðu ákveðin vatnaskil en á þeirri stundu var orðið til atvinnumiðað dansnám, listdansinn var tengdur starfandi leikhúsi og þar af leiðandi orðinn að viðurkenndri atvinnugrein. Starfsemi dansflokksins var tengd Listdansskóla Þjóðleikhússins sterkum böndum og tóku nemendur skólans reglulega þátt í sýningum flokksins. Árið 1990 fluttu bæði dansflokkurinn og listdansskólinn úr því hreiðri sem Þjóðleikhúsið hafði búið þeim og settust að á Engjateigi 1 og breytti skólinn nafni sínu í Listdansskóli Íslands. Haustið 1997 flutti dansflokkurinn í Borgarleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn og Listdansskóli Íslands urðu tvær aðskildar stofnanir.
Íslenski dansflokkurinn sinnti alla tíð fjölbreyttum verkefnum og reyndi eftir fremsta megni að sýna klassískan listdans. 1996 varð Katrín Hall listrænn stjórnandi dansflokksins og markaði honum þá stefnu að einbeita sér að samtímadansi. Íslenski dansflokkurinn hefur með tímanum skipað sér á meðal fremstu nútímadansflokka í Evrópu og unnið með mörgum af fremstu danshöfundum veraldar, auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Dansflokkurinn heldur reglulega sýningar á Íslandi og ferðast víða um heim með verk sín. Við Íslenska dansflokkinn starfa nú á annan tug dansara í fullu starfi auk annara gestalistamanna.
Háskólamenntun í dansi
Árið 2000 gekk FÍLD undir stjórn Nönnu Ólafsdóttur á fund Hjálmars H. Ragnarssonar rektors Listaháskólans til að ræða hugmyndir félagsmanna varðandi listdansnám á háskólastigi en Listaháskólinn hafði verið settur í fyrsta skiptið þann 10. september 1999. Lýst var yfir áhuga á að dansinn fengi sess innan veggja skólans þar sem brýn nauðsyn þótti til að dansinn sæti við sama borð og aðrir í samfélagi listanna. Árið 2001 skoraði Ólöf Ingólfsdóttir sem þá hafði tekið við formennsku, að nýju á stjórn Listaháskólans að stofnuð yrði dansdeild innan hans. Fyrirséð var að þesskonar dansdeild yrði lyftistöng fyrir danslífið í landinu þar sem menntun dansara myndi færast hingað til lands, en landflóttinn hafði verið mikill, dansarar fóru erlendis í nám og snéru ekki til baka.
Umræðan um tilhögun námsins tók breytingum eftir því sem Listaháskóli Íslands þróaðist og listdansbraut framhaldsskólanna styrktist. Vorið 2005 var svo tekin ákvörðum um stofnun eins árs diplómanáms í dansi innan leiklistardeildar skólans undir stjórn Karenar Maríu Jónsdóttur. Jákvæð reynsla af diplómanáminu leiddi svo til stofnunar þriggja ára B.A. náms í samtímadansi og hófst kennsla samkvæmt nýrri kennsluskrá haustið 2007. Markmið námsins er að útskrifa vel þjálfaða, skapandi og forvitna danslistamenn sem nálgast viðfangsefni sín með rannsakandi hug og eru tilbúnir að takast á við starfsferil í fjölbreyttum og síbreytilegum heimi dansins.
Tilkoma dansnáms á háskólastigi skapaði einnig forsendur fyrir stofnun kennaranáms í greininni. Vorið 2008 fór stjórn FÍLD því þess á leit við deildarforseta listkennslunáms í Listaháskóla Íslands að stofnað yrði til meistaranáms fyrir listdanskennara. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og var vorið 2009 opnað fyrir umsóknir dansara inn í námið. Önnur þróun innan háskólanna er tilkoma nýs kjörsviðs innan Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) sem mennta á dansmenntakennara fyrir grunnskólana en kennsla hófst samkvæmt kennsluskrá haustið 2008. Þróun þessa náms innan KHÍ varð möguleg uppúr 1999 en þá hlaut listdansinn í fyrsta skipti sinn sess innan aðalnámskrár grunnskóla þar sem hann var skilgreindur sem ein af fimm listgreinum á listasviði. Megintilgangur dansmenntunar innan grunnskólans er að gefa barninu tækifæri til að fá útrás fyrir, tjá og túlka hugsun sína, hugmyndir og tilfinningar með líkamstjáningu, en skapandi hugsun og sköpunargáfa er einstaklingnum nauðsynleg til þess að mæta síbreytilegum kröfum nútímaþjóðfélags.
Fræðin og dansinn
Íslenska dansfræðifélagið var stofnað árið 1998 að frumkvæði Dr. Sigríðar Þ. Valgeirsdóttur, með það markmið að skapa farveg fyrir samskipti og samvinnu þeirra sem sinna dansrannsóknum, jafnframt því að efla fræðilega þekkingu á dansi og stuðla að auknum dansrannsóknum hér á landi. Íslenska dansfræðafélagið er aðili að NOFOD, Nordisk forum for dans forskning. Hefur félagið staðið fyrir ráðstefnum um dansrannsóknir og árið 2004 kom það í hlut Íslendinga að halda ráðstefnuna, undir yfirskriftinni Dance Heritage: Crossing Academia and Physicality. Fyrirlesarar og þátttakendur voru þó ekki aðeins frá Norðurlöndunum því í sívaxandi mæli hafa virtir fræðimenn víða að úr heiminum sótt þessar ráðstefnur. Segja má einnig að ráðstefnur NOFOD hafi skilað miklum árangri í formi aukinna dansrannsókna og samvinnu norrænna fræðimanna á þessu sviði. Félagsmönnum, sem eru vel menntaðir á dansfræðasviði, fjölgar stöðugt og fjölmörg verkefni bíða þeirra hérlendis.
Reykjavík Dance Festival
Hópur sjálfstætt starfandi dansara og danshöfunda fer ört vaxandi á Íslandi og er ljóst að sífellt fleiri velja sér Ísland sem starfsvettvang. Er Reykjavík Dance Festival runnin undan rifjum nokkurra þessa sjálfstæðu danshöfunda. Reykjavik Dance Festival var stofnuð árið 2002 til að skapa vettvang fyrir ný íslensk dansverk. Jafnframt er markmið hennar að efla samstarf við íslenska dansara erlendis og auka við fjölbreytni danssýninga hérlendis með erlendum gestasýningum. Hátíðin hefur fengið á sig alþjóðlegan blæ og hefur vakið athygli á Reykjavík sem fjölbreyttu og framsæknu menningarsamfélagi.
Sjálfstæðir danshópar
Fyrir tilstilli sjálfstæðra dansara og danshöfunda hefur fjöldi og fjölbreytileiki danssýninga aukist all verulega. Ungir dansarar hafa komið með ný form inn í leikhúsið, m.a. með því að nýta sér aðrar listgreinar til samþættingar í sköpunarverki sínu. Ekki hefur einungis verið um frumsköpun í dansi að ræða heldur einnig frumflutning nýrrar tónlistar í sömu andrá og sviðslistin hefur öll orðið ríkari fyrir vikið.
Sjálfstæðir danshópar starfa undir flaggi Bandalags Sjálfstæðra Leikhúsa (SL) og eru þeir hátt á annan tug talsins. Sýningar þeirra eru unnar og sýndar bæði hérlendis og erlendis og má áætla að fjöldi sýningakvölda erlendis sé árlega í kringum 100 með tilheyrandi áhorfendafjölda. Árið 2006 var að frumkvæði Félags íslenskra leikara (FÍL) undirritaður samstarfssamningur til þriggja ára milli Reykjavíkurborgar, Icelandair, Glitnis og FÍL um Loftbrú Reykjavíkur – Talíu. Sjóðurinn er hugsaður sem alþjóðlegur tengslasjóður fyrir sviðslistamenn og hefur hann stutt m.a. við bakið á framsæknum sjálfstætt starfandi dönsurum og danshópum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund.
Dansverkstæðið - vinnustofur danshöfunda
Árið 2010 stofnaði hópur danshöfunda Dansverkstæðið - vinnustofur danshöfunda, í afar hráu húsnæði á Skúlagötu. Markmiðið var að bjóða danshöfundum upp á aðstöðu til æfinga og sköpunar, auk reglulegra þjálfunartíma. Aðstæður á húsnæðismarkaði voru þannig að hægt var að fá iðnaðarhúsnæði leigt á viðráðanlegu verði. Nokkur styrkur fékkst frá Reykjavíkurborg til að setja einföld trégólf í rýmið og mála. Þegar fyrsti danshópurinn, Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan, mætti til æfinga á Dansverkstæðinu var ekki kominn almennilegur hiti í húsnæðið og allar aðstæður ansi frumstæðar, en þetta var byrjun og síðan hefur leiðin legið jafnt og þétt upp á við. 2018 flutti Dansverkstæðið í stærra og betra húsnæði á Hjarðarhaga 47.
Með tilkomu Dansverkstæðisins varð dansinn í fyrsta skipti húsbóndi á eigin heimili, enda miðast öll starfsemi við að mæta þörfum sjálfstætt starfandi atvinnudansara og danshöfunda. Dansverkstæðið leigir rými til danshöfunda og -hópa, en leikhópar og ópera nýta sér einnig aðstöðuna. Dansverkstæðið gegnir mikilvægu hlutverki í að styrkja samfélag danslistamanna og styðja við þróun þeirra á margvíslegan hátt.
Framtíðin: Danshús - miðstöð fyrir samtímadans á Íslandi
Þrátt fyrir 100 ára sögu listdans á Íslandi hefur mesti vaxtakippurinn átt sér stað frá aldamótum 2000. Má því segja að íslenskur listdans sé ung atvinnugrein. Á þessari öld var stofnuð fyrsta íslenska danshátíðin, Reykjavik Dance Festival, listdanskennsla komst á háskólastig með dansbraut í Listaháskóla Íslands og Íslenski dansflokkurinn styrkti sig í sessi með stórauknu fjármagni og vaxandi alþjóðlegu orðspori. 2010 litu Samtök um Danshús dagsins ljós. Eins og nafnið gefur til kynna er helsta baráttumál samtakanna að komið verði á fót Danshúsi í Reykjavík. Samtökin reka Dansverkstæðið - vinnustofur danshöfunda, til að mæta þörfum danslistamanna fyrir rými til æfinga og sköpunar.
Félagsmönnum FÍLD hefur fjölgað töluvert og stór hópur þeirra eru sjálfstæðir dansarar og danshöfundar sem starfa verkefnabundið fyrir stóru leikhúsin og leikhópa auk þess að vinna að verkefnum fyrir áhugaleikfélög og framhaldsskóla, fyrir auglýsingar, dagskrá- og kvikmyndagerð. Það er í þeirra málaflokki sem mikilla breytingar er þörf en fjármagns- og aðstöðuleysi hefur verið dragbítur á greininni og heft þá þróun sem möguleg væri innan hennar.
Félag íslenskra listdansara kynnti vorið 2008 fyrstu hugmyndir að Danshúsi í Reykjavík – Miðstöð fyrir samtímadans á Íslandi, með útgáfu greinargerðar. Danshús finnast í flestum borgum Evrópu en síðastliðin 25 árin hafa þau komið inn á sjónarsviðið sem ferskur andblær sem einkennist af öflugu tengslaneti, samvinnu og flæði milli borga, sveitarfélaga og landa. Í danshúsum er vettvangur fyrir dansflokka og danshópa til starfsemi sinnar. Einnig er þar vettvangur fyrir danslistamenn til að starfa sjálfstætt, byggja upp sjálfbæran starfsferil og mynda sambönd til framtíðar. Danshúsið veitir þeim þekkingu, upplýsingar, aðstöðu og fjármagn til þessa.
Síðustu ár hafa íslenskir danslistamenn stigið fram á sjónarsviðið í sí auknu mæli og haft frumkvæðið að margvíslegum verkefnum og viðburðum hérlendis sem erlendis. Þeir hafa unnið þrekvirki sem komið hefur Íslandi á kortið sem öflugu, framsæknu og spennandi menningarheimi. Hefur vinna á erlendum vettvangi að miklu leiti átt sér stað í danshúsum en því miður hefur hún ekki skilað sér nógu mikið hingað til lands þar sem starfsumhverfi danslistamanna er óviðunandi. Hugmyndir okkar miða að því að virkja þá krafta sem búa í okkar danslistamönnum með því að byggja upp aðstöðu hérlendis í formi danshúss. Þar yrði komið á miðstöð alþjóðlegra tengsla með virku flæði þekkingar, samvinnu og sköpunarkrafts milli landa. Starfsvettvangur danshússins mun þó ekki einskorðast við höfuðborgarsvæðið þar sem tenging við nýtilkomin menningarhús á landsbyggðinni verður tryggð.
Tillögur um danshús eru ætlaðar sem hluti af opinberri stefnumörkun í atvinnulífi landsins á sviði listdansins þar sem virkjun hugvitsins og markviss sköpun verðmæta er höfð að leiðarljósi. Búa þarf listdansinum umhverfi við hæfi þannig að hann geti þroskast sem atvinnugrein sem ekki aðeins stendur jafnfætis öðrum listum heldur einnig öðrum atvinnugreinum í þekkingarsamfélagi. Úrlausn felst annarsvegar í stórauknum fjárframlögum til þessa málaflokks og hinsvegar samræmingu innan dansgeirans til að tryggja nauðsynlega samfellu.