top of page

Ávarp YANG Liping
Dansara og danshöfunds frá Kína
Alþjóðlegi dansdagurinn 2023

Dans – Leið til að hafa samband við umheiminn

 

Líkamstjáning er eitt ósjálfráðasta tjáningarformið. Líkt og nýfædd börn, getum við notað hendur okkar og fætur til að mynda danskennda hreyfingu, jafnvel áður en við höfum lært að mynda orð og rætur dansins liggja svo í þessu „frumstæða tungumáli“.

 

Það er margt sem fær fólk til þess að dansa. Amma mín sagði mér einu sinni að í heimabæ mínum væri dansinn leið til þess að þakka sólinni fyrir að veita birtu og yl inn í líf okkar.

 

Þegar uppskeran var góð, dönsuðum við á ökrunum með gleði í hjarta til þess að tjá jörðinni þakklæti okkar. Þegar við hittum einhverja sem við elskum, eigum við jafnvel til að reyna að ná hylli þeirra með því að dansa eins og páfuglinn sem breiðir úr stélfjöðrum sínum. Meira að segja þegar við erum veik, eigum við til að nota dularfulla helgisiðadansa til að hrekja burt sjúkdómadjöflana.

 

Í mínum heimi hefur dansinn verið samofinn lífi okkar og tilveru á margvíslegan hátt, allt frá frumbernsku. Hann hefur alltaf verið lykillinn sem opnar á samskipti mannfólksins við náttúruna og allar lifandi verur. Í heimabæ mínum er til máltæki sem segir: „Ef þú hefur fætur en getur ekki dansað, þá hefur þú eytt lífi þínu til einskis“. Dansinn er nátengdur náttúrunni og lífinu. Í mínum huga er dansinn eitt og hið sama og náttúran og lífið – þetta er hinn sanni kjarni dansins.

 

Sumt fólk kemur í heiminn í þeim tilgangi að viðhalda ætt sinni, sumir koma til að njóta lífsins, sumir koma til að öðlast reynslu. Hvað mig snertir, þá er ég áhorfandi lífsins. Ég kem til að sjá hvernig blóm springur út og fölnar, hvernig skýin líða um loftin og hvernig dögginn þéttist ...

 

Þess vegna á allur sköpunarinnblástur minn rætur að rekja til náttúrunnar og lífsins: birtu tunglsljóssins, fjaðraskrautssýningar páfuglsins, umbreytingar fiðrildis úr lirfuhýði, hvernig drekaflugan rennur yfir vatnsyfirborðið, hvernig tólffótungur hlykkjast, hvernig maurar mynda röð ...

 

Fyrir mörgum árum stóð ég á sviði, sneri að áhorfendum og dansaði fyrsta verkið sem ég samdi – páfugladansinn Sál páfuglsins. Páfuglar eru ennþá til í heiminum. Páfuglinn er vera sem í hinum austræna heimi táknar heilagleika og stendur fyrir fegurð, því að útlitslega líkist hann fuglinum Fönix, með glæsilegri líkamsstöðu sinni sem minnir um margt á drekann. Meðan ég dansaði fannst mér ég átta mig á sál páfuglsins.

 

Dansmenning mannkynsins er ríkuleg og býr yfir sameiginlegri menningu og eiginleikum. Kjarna dansins fengum við með því að fylgjast með náttúrunni, lífinu og öllum lífverunum sem umkringja okkur. Þjóð mín býr einnig yfir ríkulegri dansmenningu og þeim arfi framfylgi ég af ástríðu. Dansmenningin veitir okkur andlega og líkamlega næringu, veitir okkur hæfileikann til að eiga í samskiptum við umheiminn. Ég safnaði saman nokkrum frumstæðum þjóðdönsum og sviðsetti þá, samanber Yunnan áhrifin, Tíbeska ráðgátan, Pingtan áhrifin og marga aðra til viðbótar. Allir þessir dansar áttu rætur að rekja til landsins og eru arfleifð sem við fengum frá forverum okkar og þurfa á kröftum okkar að halda til að þeir varðveitist og nái athygli umheimsins.

 

Þegar búið var að sviðsetja þessi verk, höfðu þau djúp áhrif á fólk vegna hrífandi fegurðar þeirra og menningarlegrar þýðingar. Sem dansari hef ég áratugum saman haldið áfram að kanna óendanlegt svið dansins og mér hefur verið boðið að semja samtíma tilraunaverk, samanber Under Siege – the Full Story of Farewell My Concubine og Rite of Spring fyrir svið alheimsins.

 

Listaverk mín eru innblásin af náttúru heimabæjar míns, persónulegri lífsreynslu og víðfeðmri menningu Austurlanda sem er órofa hluti heimsmenningarinnar, því að hún veitir fjölbreytileika, ríkidæmi og - umfram allt - innblástur.

 

„Lært af náttúrunni“ og „Eining mannsins og alheimsins“ er heimspekin, viskan og fagurfræði hins austræna heims. Þessar fræðikenningar eru líka andlegur kjarni listaverka minna. Sem mannverur ættum við að bera virðingu fyrir náttúrunni, læra af náttúrunni og vera samstillt náttúrunni, á alveg sama hátt og jörðin, fjöllin og himinninn eru.

 

Dansarar og danshöfundar þurfa að hlusta af meiri athygli á gleði og sorgir heimsins, nota dansinn til að fullkomna samtal okkar við náttúruna og lífið sem hefur verið til í þúsundir ára.

 

Núna í dag vil ég ekki aðeins deila dansmenningu okkar með heiminum, heldur vonast ég líka til að bjóða öllum dönsurum í heiminum, sem elska að dansa og myndu vilja tjá tilfinningar sínar með dansi, til þess að dansa saman í þeim tilgangi að auðsýna himni og jörð ást okkar og lofgjörð.

 

Lífið endar aldrei og dansinn hættir aldrei.

Þýtt af Steinunni Þorvaldsdóttur, byggt á enskri þýðingu kínverska textans

bottom of page