Ávarp Willy Tsao
Alþjóðlegi dansdagurinn 2018
Kæru vinir alþjóðlega danssamfélagsins
Heimsbyggðin virðist standa í stöðugum ágreiningi og vandræðum. Við höfum orðið vitni að linnulausum átökum milli landa, kynþátta og menningarsamfélaga, sérstaklega á undanförnum árum. Sem dansiðkandi kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér hvort listin gæti verkað líkt og eins konar mótefni gegn þeirri sundrung sem ógnar friði og samlyndi þjóða.
Ég hef unnið að því að koma danslistinni á framfæri í Kína frá því seint á níunda áratugnum og reynt að sannfæra almenning um að dans, sérstaklega samtímadans, sé mikilvægur fyrir þróun þjóða. Ég hef þá trú að grundvallarþættirnir sem einkenna samtímadans – tjáning einstaklingsins, frumlegar hugmyndir og rannsókn á mannlegum aðstæðum - leggi grunninn að þeim lífsreglum sem gera Kína nútímans kleift að halda áfram að vaxa og dafna.
Til þess að ná framúrskarandi árangri í samtímadansi er tjáning einstaklingsins afar mikilvæg. Við lærum því að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum og fjölbreytileika. Við metum mikils leitina að frumlegum hugmyndum. Þess vegna samþykkjum við breytingar og erum fús til að aðlagast nýjum lífsvenjum. Við metum mikils þörfina fyrir að skilja atburði og málefni líðandi stundar til þess að öðlast skilning á mannlegri tilveru. Þannig verðum við umburðarlyndari og skilningsríkari þegar við stöndum augliti til auglitis hvert við annað, án tillits til alls mismunar.
Líkt og flest Asíu- og Kyrrahafslöndin býr Kína yfir ríkulegum menningararfi. Áratugum saman var landið hins vegar verið lokað umheiminum og fór ekki að opnast fyrr en með umbóta- og frelsisstefnu sinni árið 1978, fyrir nákvæmlega 40 árum. Vissulega er ennþá mikið starf fyrir höndum þar til almenningur í Kína öðlast nægan skilningi til að meta gildi samtímadans. Ég sé þó grilla í ákveðnar breytingar í burðarliðnum sem gefa til kynna að unga fólkið í Kína hafi áhuga á samtímadans listforminu og noti það sem leið til sjálfstjáningar. Þar sem tengslin við alþjóðasamfélagið fara vaxandi og gagnkvæm samskipti á sviði samtímadans verða sterkari, er ég sannfærður um að það muni flýta því ferli að Kína verði mikilvægt afl í að berjast fyrir skoðanafrelsi, hampa frumlegum breytingum og leggja rækt við umburðarlyndi og skilning meðal þjóða í þessum hrjáða heimi.
Takk fyrir.
Willy Tsao, Hong Kong
Stofnandi / listrænn stjórnandi
City Contemporary Dance Company og Beijing Dance