top of page

KVENORKA OG KLASSÍK


Íslenski dansflokkurinn býður upp á sýningarár mettað af blóði, svita, brjóstamjólk, slefi og tárum, ást og örlögum, vonbrigðum, faðmlögum, frasasalötum, orðasúpum, tilvitnunarhlaðborðum, tengslanetum, börnum, unglingum, ársskýrslum, von og óvon, hrörnun, úrkynjun, symmetríum, mannáti, sinfóníuhljómsveitum, gullna sniðinu, óvissuferðum, máttleysi, minningum, göldrum,, ofsakvíða, vindorku, orkuleysi, máttleysi, tímaleysi, víðáttubrjálæði, víddahoppi, geislavirkni, silfurskottum, móðureðli, náttúru, skordýrum, fornleifafræði, risaeðlum, steingervingum, orkusprengjum, jarðlögum, lagkökum, leggöngum, undirgöngum, virkjunum, gullbrjóstum, efnaskiptum, hormónum, tíðahvörfum, tíðaranda, Akureyri, Hong Kong, Bilbao, Harstad, London, Borgarleikhúsinu, Listahátíð Reykjavíkur, rugli, lygasögum, öskuræfingum, söngli, sundballet, hárballet, ögrunum, ýkjum, kvenorku, orkupökkum, köttum, hundum, hestum, hrútsskýringum og dauðum en mjög svo frægum mönnum, en fyrst og fremst sýningarár fullt af DANSI!

Íslenski dansflokkurinn frumflytur á Íslandi fjögur ný verk eftir fimm magnaðar og margverðlaunaðar listakonur; Katrínu Gunnarsdóttur, Elinu Pirinen, Önnu Þorvaldsdóttur, Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur. Fyrstu tvær frumsýningar ársins eiga það sameiginlegt að vera frumsköpun, en seinni tvær sýningar ársins voru frumsýndar á erlendri grundu á síðasta sýningarári og eiga það sameiginlegt að vera báðar unnar í samstarfi við sinfóníuhljómsveitir.

ÞEL eftir grímuverðlaunahafann Katrínu Gunnarsdóttur er fyrsta frumsýning ársins 2019. Katrín hefur getið sér gott orð sem danshöfundur og er ÞEL fyrsta verkið sem hún semur fyrir Íslenska dansflokkinn. Katrín lýsir verkinu sem lífveru og líkama hóps sem fléttast saman, hlustar og leitar að samstöðu í gegnum endurteknar umfaðmandi athafnir í hreyfingum og söng, sem skapar þannig samhug og nánd sín á milli. Eva Signý Berger mun sjá um hönnun á búningum og sviðsmynd. ÞEL verður frumsýnt 20. september á Nýja sviði Borgarleikhússins.


Á hlaupaársdegi 2020 mun dansflokkurinn frumflytja nýtt verk eftir finnska danshöfundinn Elinu Pirinen sem er orðin vel þekkt fyrir sinn einstaka stíl innan evrópsku danssenunnar. Rhythm of Poison er fjörug og hrífandi tjáningarveisla þar sem iðkaður er dulvitundardans og dýrðlegur söngur í dásamlegri veröld dómsdagstónlistar. Rhythm of Poison verður frumsýnt 29. febrúar á Nýja sviði Borgarleikhússins.


Íslenski dansflokkurinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytja á Íslandi verkið AIŌN eftir þær Ernu Ómarsdóttur og Önnu Þorvaldsdóttur í Eldborg 1. apríl 2020. AIŌN er innblásið af abstrakt hugsun um tímann og ferðalag milli vídda. Í AIŌN bjóða Erna Ómarsdóttir og Anna Þorvaldsdóttir áhorfendum upp á töfrandi heim þar sem tónlist og dans mætast á óvanalegan hátt og dansarar Íslenska dansflokksins og hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitari Íslands renna saman í eitt undir stjórn Önnu Maríu Helsing hljómsveitarstjóra. AIŌN var fyrst frumsýnt í Gautaborg í maí síðastliðnum þar sem Íd flutti verkið ásamt Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar. Sýningin hlaut mikið lof frá bæði áhorfendum og gagnrýnendum og var verkinu lýst sem „náttúruafli” (Dagens Nyheter í Svíþjóð) sem „sló algjörlega í gegn” (El Pais á Spáni).


Lokafrumsýning Íslenska dansflokkins á árinu er stórvirkið Rómeó + Júlía eftir Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur sem frumsýnt verður í Hofi á Akureyri 6. júní 2020. Rómeó + Júlía var upphaflega skapað í samstarfi við dansara Gärtnerplatz leikhússins í München 2018 og var sýningin sögð vera „hugrakkur, dásamlegur, þokkafullur og óhugnanlegur samleikur og sigur fyrir hina fullkomlega óhræddu Íslendinga” (BR-Klassik).

Rómeó + Júlía er nú endurskapað í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Sígildur harmleikur Shakespeares er rækilega afbyggður og brotinn niður í fjölmargar frásagnir sem gerast samhliða svo úr verður veröld full af lostafullri þrá, líkamsvessum og logandi eldtungum, særingarmætti öskursins og heilandi ást - undir skæru og neonlituðu hjarta. Saman við renna ævintýraleg sviðsmynd Chrisander Brun og búningar Sunnevu Ásu Weisshappel, mögnuð vídeóverk Valdimars Jóhannssonar og stórkostleg tónlist Sergeis Prokofievs undir stjórn Önnu Maríu Helsing, svo úr verður sýning sem lætur enga ósnortna. Rómeó + Júlía er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Listahátíðar í Reykjavík og Þjóðleikhússins.

16 views

Recent Posts

See All

Ræða á Alþingi um mál listdansskólanna

Síðastliðinn þriðjudag, 28. mars 2023 hélt Viðar Eggertsson þingmaður Samfylkingarinnar ræðu um málefni listdansskólanna á þingfundi Alþingis. Við fögnum því að þingmenn sýni málefni okkar áhuga og st

Aðalfundarboð FÍLD 2023

Stjórn FÍLD boðar til aðalfundar félagsins sunnudaginn 5.febrúar kl.16:00 – 17:30 í Dansverkstæðinu, Hjarðarhaga 47. Dagskrá aðalfundar: 1. Fundur settur: a) skipan fundarstjóra b) skipan fundarritar

留言


bottom of page